Leita í fréttum mbl.is

Ný-dönsk skattahækkun RoskildeBankFestival á Óla og Píu stöðugleikum ESB 2008

Jæja. Þá kom þriðja hendin og fór ofaní vasa okkar hér í himnaríki fjármála í Evrópusambandinu. Venjulega tala ég um þriðju höndina með mikilli virðingu því hún tilheyrði þessu stórmenni sem bæði var flóttamaður og snillingur

En þriðja höndin - í þessu samhengi dagsins - er þó nátengd þriðja auganu sem við höfum fjallað um áður, hér. Þetta er sem sagt peningamálefni hins dauða Roskilde Bank sem fór á hausinn beint ofaní vasa okkar danskra skattgreiðenda í dag. Alveg á bólakaf ofaní þessa hálftómu vasa skattgreiðenda hér í þessu hálfsjálfstæða "héraði" Evrópusambandsins, Danmörku

En af hverju var Roskilde Bank sendur beint ofaní vasa okkar skattgreiðenda? Þetta er einungis smábanki og sem hefði átt að fá að fara á hausinn. Viðskiptaráðherra Danmerkur hefur nú beðið fjármálanefnd danska þingsins um að samþykkja ríkisábyrgð sem nemur 200 miljörðum íslenskra króna til þess að standa undir skuldbindungum bankans. En í versta falli er gert ráð fyrir að tapið fyrir ríkið geti orðið samtals 600 miljarðar íslenskra króna. 33.000 hluthafar í Roskilde Bank hafa hér tapað öllu hlutafé sínu sem svararði til andvirðis 60 miljarða íslenskra króna. Samtals er gert ráð fyrir að gjaldþrotið geti kostað hvert lifandi mannsbarn í Danmörku allt að andvirði 115.000 íslenskra króna. Menn geta sér svo til um hvaða bankar muni rúlla næst hér í Danmörku. Svona til gamans og í tilefni dagsins, eigum við ekki að reyna að geta okkur til um ástæðunnar fyrir því að skattgreiðendur fá að borga þennan brúsa? 

  • Jú, við búum við beintengingu gömlu dönsku krónunnar við evru. Danska krónan hefur því ekkert gengi lengur gagnvart 50% af útflutningsmörkuðum Danmerkur
  • Það er ekki auðvelt að viðhalda þessari beintengingu við evru því hún krefst mikils aðhalds í efnahagsmálum. Það er ekki hægt að gera neitt sem hugsanlega mun hafa neikvæð áhrif á gengi dönsku krónunnar því þá þarf útibú seðlabanka evru, sem er seðlabanki Danmerkur, Nationalbanken, að stíga á stýrivaxta-bensíngjöfina um leið og ríkisstjórn Danmerkur þarf að stíga bremsurnar í botn og setja upp gaddavíra í hagkerfinu
  • Það er því ekki ráðlegt að auka hættu á vantrausti á gengi dönsku krónunnar gagnvart evru því þá fer gjaldeyrismarkaðurinn í ofnæmiskast og kallar strax á stærri skammt af ofnæmislyfjum í formi hærri áhættuþóknunar. En bíddu nú hægur, áhættuþóknun fyrir hvað? Jú, áhættuþóknun á skuldabréfum húsnæðislánastofnana sem eru seld til fjárfesta, og sem margir hverjir eru útlenskir. Þeir munu krefjast hærri áhættuþóknunar í formi hærri vaxta eða stærri affalla og jafnvel í formi hærri stýrivaxta
  • En bíddu nú aftur hægur Gunnar! Þú ert jú búinn að segja að þessi beintenging við evru tryggi rosalegan stöðugleika. Nein Gunther, það sagði ég ekki, alls ekki! Það voru aðrir sem sögðu það. En ef Roskilde Bank hefði veið látinn fara á hausinn, hvað hefði svo sem skeð við það? Þetta er einungis smábakarí. Jú, fjárfestar skuldabréfa hefðu farið að bora ofaní danskan efnahag og orðið smá-hræddir, og beðið um meri og betri tryggingar, eða hærri áhættuþóknun, þ.e. betri ofnæmislyf
  • Sem sagt, vextir á húsnæðislánum allra hefðu hækkað því annars hefði gengi skuldabréfa lækkað of mikið því "traust" fjárfesta væri orðið minna því þeir myndu álíta að fjármálastofnunum yrði ekki bjargað í erfiðleikum og þar með að fjárfestingar þeirra í dönskum múrsteinum væru orðnar einni tönninni lélegri. Stór hluti af þeim kröfum sem hvíla á Roskilde Bank eru lán frá öðrum dönskum bönkum og fjármálastofnunum (lán á millibanka-markaði) svo það hefði komið töluverð keðjuverkun út í allt bankakerfið. Þetta var því eina leiðin, því varla fæst áhættuþóknunin heim í formi hærri stýrivaxta. Svo þetta er stöðugleikinn. Stöðugur stöðugleiki. Verðtrygging skatta. Verðtrygging ríkisútgjalda og verðtrygging stöðnunar. Efnahagslíkan sem engin áföll þolir
Stöðugleikur ESB

Takk fyrir kaffið kæru lesendur. Að lokum: ég þori ekki að spá í hvað mun ske þegar stórir og voldugir bankar munu fara á hausinn á Spáni, í Þýskalandi eða á Ítalíu á næstunni. Mun þá seðlabanki evru (ECB) senda peningana í pósti eða þarf evrusvæðið af biðja Alþjóðabankann um þróunaraðstoð - eða á kanski að stækka skattaeinokunarsvæði Evrópusambandsins og innheimta peningana hér og þar hjá Petr og Pronto? 

Tengt efni:

Um skattaeinokunar-auðhringa - OPEC-draumur embættis- og stjórnmálamanna í Evrópusambandinu. 

Verkið eftir Pólverjann Frédéric Chopin sem Vladimir Horowitz flutti fyrir okkur þarna fyrir ofan heitir Polonaise og var það síðasta sem pólska ríkisútvarpið í Varsjá náði að senda út á öldur ljósvakans áður slökkt var á senditækjum þess er sameining Evrópu með vopnavaldi hófst árið 1939. Þar með hófst stóra þögnin. Það var gott að Horowitz hafði einhvern stað til að flýja til. Það var gott að heimurinn var ekki orðinn eitt sameinað svæði eins brjálæðings þar sem hvergi er hægt að flýja. Annars hefði Horowitz kanski þurft að eyða þess sem eftir var æfinnar sem kamarhreinsari í Síberíu. Hér er yndislegt að sjá Horowitz gera heiminn ríkann og bjóta niður múra endimarka möguleikanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Jón Arnar

Sumir segja að þarna hafi Fehmernbrúin farið fyrir lítið. En kostnaður ríkisins (skattgreiðenda) gæti orðið jafn mikill og það hefði kostað að byggja þessa nýju brú á milli Sjálands og Þýskalands.

En eitt er þó víst. Þetta mun þýða niðurskurð á öðrum verkefnum hins opinbera því þeir voru jú einmitt að ráðstafa allt að 37 miljörðum dönskum skattakrónum í það að stofna ríkisrekinn banka í þrotabúi Roskilde Bank. Ríkið er nefnilega núna komið út í bankarekstur. En þetta var svo gersamlega útúr heimsk aðgerð því það verða engir peningar til ráðstöfunar ef það kemur alvöru banka-krakk.

Skattastoppið? Já það er þarna og tryggir 100% að skattar geta ekki lækkað, því í hlutarins eðli þá þeir geta jú ekki hækkað meira án þess að danska ríkið fari hreinlega á hausinn.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 26.8.2008 kl. 08:55

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Sæll Gunnar.

Ja ljótt er að heyra úr Evrópusambandssæluríkinu Danmörk. Gott
samt fyrir hinn íslenzka viðskipta-og bankamálaráðherra að vita
af, eins og hann hefur talað að andaförnu með esb-glýuna í augum.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 26.8.2008 kl. 17:37

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já en Gunnar minn: Er ekki sagt að það sé "sætt sameiginlegt skipbrot?"

Annars held ég að þeir hljóti nú að geta reddað þessu þarna á Bifröst í Borgarfirði ef þeir verða beðnir um það þeir Eiríkur Bergmann og Rektor Ágúst Einarsson. Ég er ekki viss um að þeir viti neitt af þessu árans klúðri með þennan bankaræfil.

Árni Gunnarsson, 26.8.2008 kl. 19:45

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sælir kæru menn.

Financial Times ásakar í blaði sínu í dag Danmörku, og þá sérstaklega seðlabanka Danmörku, fyrir að hafa notað evrubindinguna sem afsökun og kodda fyrir að hafa ekki stýrt efnahagnum betur (að gera ekki neitt). Að þeir hefðu átt að hækka stýrivexti umfram stýrivexti evru fyrir löngu löngu síðan, til að stemma stigu við skuldsetningu allra. Að efnahagur heimilanna sé sá versti í OECD þegar að skuldum kemur, þar sem húsnæðisskuldir heimilanna séu meira en þrefaldar miðað við ráðstöfunartekjur þeirra og að afleiðingarnar verði skelfilegar.

Ég veit að þessi gagnrýni mun hljóma eins og babbelidiabbish-voilapyk og sem tungumál geimvera í eyrum manna hérna í evrufangelsinu. Enginn mun skilja þessa athugasemd FT, svo gersamlega eru menn orðnir heilaþvegnir af að láta Frankfurt stýra vöxtunum að þeir fylgjast bara ekki með neinu í eigin garði. Allt stillt á auto-pilot og áhöfnin steinsofandi.

En afleiðingarnar verða sorglegar. Mig hefði langað til að spyrja FT hvort Danir hefðu ekki bara gott af því að fá smá námskeið í stýrivöxtum hjá Seðlabanka Íslands. En svona má náttúrlega ekki segja maður, því SBÍ heitir jú ekki ECB og er ekki í neinu Fürtinu hans Franks í Babel.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 27.8.2008 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband