Leita í fréttum mbl.is

Hrun olíuverðs

Norski olíugreinandinn Arnstein Wigestrand spáir að olíuverð muni hrynja á seinnihluta þessa árs. Arnstein Wigestrand er ekki hver sem er. Hann var einn þeirra fáu sem sáu fyrir að olíuverð myndi hækka í 70 dollara á árinu 2007 og hann sagði það á árinu 2006. Núna er hann einnig einn örfárra greinenda sem talar á móti samhljóða skara þeirra ljósritunarvéla sem starfa á sviði greininga.

Arnstein segir að núverandi olíuverð sé byggt á spákaupmennsku og á flótta fjármagns frá rústum hruninna fjármálamarkaða. Núverandi verð á olíu er búið að missa jarðsambandið vil hjónakornin herra&frú framboð og eftirspurn.

Sjálfur held ég að Arnstein Wigestrand hafi rétt fyrir sér og að þær aðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna sem ég skrifaði um í Koss mömmu muni fara að bera árangur innan skamms. 

Slóð: Spår oljepris-kollaps


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Takk fyrir skilaboð og áhugavert blogg. Þó við séum etv. ekki alveg á sömu línu í Evrópumálunum.

Ég held að ekki þurfi mikið til að þessi spá Wigestrand rætist, t.d. smá samdrátt í Kína. En held að það gerist ekki alveg á næstunni. En það kemur að því.

Ketill Sigurjónsson, 24.5.2008 kl. 19:58

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já Ketill, eða bara smá aukinn áhuga "fjárfesta" á öðrum bílastæðum fyrir peninga sína en í hráefnum, málmum, fæðu og olíu. Heimtöku hagnaðar áður en bólan springur. Það eitt gæti verið nóg til að verð hrynji. Jarðsambandið verðs við eftirspurn og framboð held ég að sé löngu rofið.

Athyglisverð grein hér

Bernanke's Bubble Laboratory

Gunnar Rögnvaldsson, 24.5.2008 kl. 20:29

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sælir

Ég er nú enginn spekúlant í þessum málum, en fylgist vel með fréttum. Ég sé hins vegar alveg hvað Arnsteinn er að meina. Það er í raun ótrúlegt hvernig þessar bólur springa hver á fætur annarri og að á einungis 10 árum hafi tvær stórar bólur sprungið - netbólan og fjármálafyrirtækjabólan. Nú flýja allir með peningana sína í hráefni, þar sem ekki er hægt að fjárfesta í hlutabréfum eða fasteignum  í heiminum. Það ástand mun lagast með haustinu eða í síðasta lagi næsta vetur og þá byrjar sama vitleysan aftur. Sumir hafa hagnast gífurlega - líkt og á netbólunni - en aðrir hafa tapað öllu sínu.

Ég held að allur hinn vestræni heimur vinni nú að því að minnka þörf okkar fyrir jarðolíu. Það verður erfiður bardagi, þar sem við erum mjög háðir jarðolíu og engir augljósir kostir í boði, en þarna hjálpar hátt verð á olíu og gerir marga aðra kosti fýsilega, sem minnkar eftirspurnina eftir olíu.

Ég held að Íslendingar verði nú einnig að beina sjónum sínum til annarra samgöngumöguleika en einkabílsins. Með þessu á ég við lestarsamgöngur, sporvagna, strætisvagna og langferðabifreiðar. Ég tek það fram að ég er mikill vinur einkabílsins. Í þýskri heimildamynd, sem ég sá um daginn var fjallað um það gífurlega verðmæti, sem þjóðir Evrópu er að enduruppgötva í lestarkerfi sínu og samgöngukerfi stórborganna - neðanjarðarlestir og sporvagnar. Það eru jafnvel hugmyndir um að taka aftur upp sporvagna, þar sem notkun þeirra hefur verið hætt.

Einnig má búast við því að stórar breytingar verði í framleiðslu á mat. Víða um Evrópu er land, sem hefur ekki verið nýtt að fullu eða verið hvílt vegna offramboðs og lágs verðs á heimsmarkaði. Það háa verð, sem núna er á matvælum mun hleypa auknum krafti í landbúnað. Ég er líka þeirrar skoðunar að þetta muni hafa góð áhrif á íslenskan landbúnað og afstöðu Íslendinga til hans.

Kveðja,

Guðbjörn Guðbjörnsson, 24.5.2008 kl. 21:03

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka Guðbirni fyrir innleggið.

Já það er erfitt að segja til um á nákvæmlega hvaða tíma bólur springa. Fjárfestar geta sem betur fer ekki samhæft hegðun og athafnir sínar. Þeir vinna óháðir hvor öðrum og vita ekki hvor af öðrum. Það er ekki fyrr en musteri óttans opnar hið opinbera hlið sitt, að allir reyna að flýja út um það á sama tíma. En enginn veit hvenær hliðið opnast. Það er stóra vandamálið við bólur. En eitt eiga þær þó sameiginlegt - það eru þeir bjartsýnu sem ríða á henni síðasta spölinn.

Ég trúi ekki einu einasta orði svartsýnismanna um hlýnun af mannavöldum. Ég held hinsvegar að núna vinni fleiri í hinum krítíska og niðurrífandi iðnaði en í hinum skapandi iðnaði á veturlödum, og að þeir vilji halda vinnu sinni, og góðum launum.

En það er alltaf gott að reyna að halda mengun í lágmarki og CO2 er ekki mengun.

Ég veit ekki hvort margir hafa séð:

The Great Global Warming Swindle - Documentary Film

Gunnar Rögnvaldsson, 24.5.2008 kl. 21:33

5 identicon

Sæll á ný frændi.
Af því að þú varst að draga Sigló inn í spjallið. Það voru afskaplega fáir dæmigerðir kapítalistar sem fjárfestu á Sigló. Allar - já allar - stóru verksmiðjurnar voru byggðar og reknar af ríkinu og bænum. Síldarplönin voru reyndar rekin af einkaaðilum, en fæstir þeirra komu auðugir út úr síldaræfintýrinu. Árið 1986 veiddist ekki síld lengur - ekki af því að síldin "hvarf", heldur af því hún var ofveidd, henni var útrýmt.
Af ýmsu er að taka í skrifum þínum. Þér líkar að bera saman Evrópu og USA og nefnri einhverstaðar að fólksflutningar (mobility) sé meira í USA en Evrópu. Það er vissulega rétt að fólk í Evrópulöndum er staðbundnara en í USA. Þetta er þó ekki einhlýtt, sbr. tyrkina í Þýskalandi, króata og serba í Svíþjóð. Ástæða þess að fólk streymir ekki á milli landa í Evrópu er ekki bara tungumálahindrun, heldur meiri stöðugleiki og meria tiltölulegt öryggi en í USA. Fyrirbæri eins og "social capital" er öllu hærra og í mörgum löndum miklu hærra en í USA.
Þú nefnir líka talnameðferð í sambandi við atvinnuleysi í Danmörku. Það er rétt að menn hafa ekki alltaf verið sammála um þetta. Danir sveifluðu stórum hópum milli atvinnuleysis og félagslegs framfæris. Þanni leit atvinnuleysið betur út. Í Noregi eru um 600 - 700 þúsund manns (á vinnufærum aldri) utan atvinnu. Samt er ekki teljandi atvinnuleysi og framleiðni samfélagsins hefur aldrei verið meiri.
Fyrir allmörgum árum jókst atvinnuleysi í Damörku um 4 %. Á sama tíma fjölgaði dönum á vinnumarkaði um meira en 300 þúsund. Skýringar?
Samanburður milli landa og "hagkerfa" er ekki aðeins erfiður, heldur oft út í hött. Það er ekki hægt að skapa bandarískar aðstæður í Evrópu og ei heldur evrópskar aðstæður í USA. Ég veit ekki í hverju USA er 23 árum á undan Evrópu? Félagslegu siðgæði á vinnumarkaði? Varla. Friðsamlegum samskiptum og viðskiptum við önnur lönd? Varla?
Kínverjar sem eru að skapa sinn kapítalisma gætu líklega sett USA á hausinn (og fara sjálfir á eftir) með því að sleppa dollarasjóðum sínum lausum. Eins og er eru kínverjar háðir USA sem markaði, en þegar því sleppir og þeirra eigin markaður er orðinn nægjanlega sterkur (og stór er hann) þá dettur botninn úr USA (ein blaðra springur).
Þrátt fyrir alla gallana á ESB er Evrópa á góðri leið með að verða fyrirmyndarsvæð varðandi viðskipti og samstarf fólks og þjóða. Mér finnst það vera kostur að Brussel-valdið sé líka upptekið af því hvernig bananar eiga vera, en ekki bara hvað þeir kosta. Veröldin er ekki bara búðir og brask.

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 26.5.2008 kl. 14:03

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kæri Albert

Þú vilt kanski gera lítið úr fjárfestingum manna á Siglufirði í byrjun 20. aldar? Menn sem voru frumkvöðlar stóriðju á Íslandi. Fjárfestar eins og Bakkevig, Evanger, Söbstad og Goos? Það er svo sem allt í lagi. En já, sumir þeirra urðu illa úti í snjóflóðum og bruna, og já, þeir gátu náttúrlega ekki keppt við ríkiskassann seinna meir. Það getur enginn.

Spurningin er því hvort allt að 20%-40% af tekjum Íslendinga á þessum tímum hefðu ekki bara synt fram hjá landinu ef þessir frumkvöðlar, útgerðarmenn og sjómenn hefði ekki þorað að ríða á vaðið ?

Loks þegar menn eru komnir á kassann þá hætta þeir að hugsa og þora, og þá hættir öll nýsköpun og arðbær fjárfesting og gamlar hugmyndir halda áfram að bora gat í ríkiskassa óarðbærra fjárfestinga.

Kínverjar munu aldrei skera undan sjálfum sér með því að dumpa dollar. Dollarasjóðir þeirra eru tilkomnir vegna þess að þeir hafa ekki frjálsa verðmyndun á gengi síns eigin gjaldmiðils. Til að einhver trúi á gengi gjaldmiðils þeirra þurfa þeir at nota dollara sem tryggingu fyrir verðgildi hanns.

Eins og er þá eru Bandaríkin 32 árum á undan ESB í þróun og rannsóknum (R&D). Þetta er mikilvægur hlutur því það þarf að fjárfesta í framtíðinni og laða bestu heilana að.

Bandaríkin eru aðeins 23 árum á undan ESB í þjóðartekjum á hvern þegna og hafa þannig enn betur efni á að fjárfesta í þróun og rannsóknum.

Bandaríkin eru 16 árum á undan ESB í framleiðni og eru einnig áratugum á undan ESB í atvinnuástandi.

Það sorglega við þetta er að bilið á milli ESB og USA fer alltaf stækkandi og ekki minkandi. Nema að einu leyti, og þá til skamms tima litið, en það hefur orðið smá framgangur í atvinnuástandi hjá ESB, sem núna er í sögulegu lágmarki á 7,2 prósentum. En það er þó fyrirsjáanlegt að atvinnuástand í ESB mun aftur fara hratt versnandi.

Gunnar Rögnvaldsson, 26.5.2008 kl. 16:21

7 identicon

Kæri Gunnar.
Það var ekki mikið ríkidæmi sem þeir skildu eftir sig gróssistarnir norsku. Jú, þegar betur er að gáð skildu þeir eftir sig verkþekkingu og gerðu þar með íslendingum kleyft að vinna síldina sjálfir. Að mörgu leiti lögðu þeir grunn að því sem kom síðar meir. Það er ótrúleg einföldun og á engan hátt í samræmi við sögulegar staðreyndir hvernig þú metur hlutverk ríkisins og sveitarfélaganna. SR og Rauðka hefðu aldrei verið sett á fót ef ekki ríki og sveitarfélag hefðu komið að. Það var einfaldlega ekki til einkafjármagn til þessara hluta. Þegar íslenskur iðnaður er að byggjast upp og íslenskir bankar verða til er ríkið eini íslenski aðilinn til þess að ráða við dæmið. Ég er ekki svo blindur að ég geri formið að aðalatrið, eins og sumir sem þá einblína á að ríkið sé alltaf af hinu illa. Mismunandi eignarform koma oft góðu til leiðar. Það er ákaflega bjánalegt að sjá ríkisrekna smásöluverslun eins og að sjá fiskinn í sjónum og orkuna í ám og í jörðinni í eigu einstaklinga.
Enn og aftur. Samanburður milli ESB og USA er ekki til neins. USA er 100 árum á eftir Norðurlöndunum í félagslegu réttlæti. Rétt eða rangt? Þjóðartekjur á mann segir ekkert um hvernig tekjunum er skipt. Í raun og veru segja þær ekkert til um uppruna teknanna. Þjóðartekjur á mann á Íslandi eru ótrúlegar. Þessvegna er það skrítið að tekjur íslendinga skuli vera svo lágar að fólk á Íslandi vinni að meðaltali ca. 500 stundum lengur á ári en í Noregi til þess að ná endum saman.
Þú nefndir talnameðferð dana í sambandi við atvinnuleysi. Kanski þeir hafi lært af einhverjum eða kennt einhverjum. Skyldu allir "þegnar" Bandaríkjanna vera á skrám og þessvegna taldir með þegar til atvinnuleysistalningar kemur? Ég er ekkert að gera lítið úr USA eða fólki þar. Bandaríkin eru frábær að heimsækja. En á fáum stöðum á jarðkúlunni er eins gróf misskipting og hana er auðvelt að sjá.
Enn og aftur, þrátt fyrir alla gallana á ESB og stöðugt stærri verkefni með inngöngu landa með "lágþróað" framleiðslulíf, er Evrópa "paradís" fyrir fólk sem vill mannlegra samfélag. Ég er ekki að segja að ESB stuðli að því en þróunin í Evrópu er í þá áttina. Það sama er að gerast í S-Ameríku.

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 07:04

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kæri Albert



Fólk vinnur alltaf meira í löndum með lítinn opinberann geira (small government state), og með lága skatta, þ.e. í löndum með stærra efnahagslegu frelsi. Það er lítil ástæða til að vinna þegar fólki er refsað fyrir það. Sem dæmi þá vinna flestir þegnar í háskattalöndum nákvæmlega sama mínútufjölda á mánuði í uppsveiflu og í niðursveiflu. Hvatningin er svo lítil og til lítils að vinna. Hagvöxtur í "small government state" er oftast miklu hærri en í ríkjum með stórann opinberann geira. En þetta var ekki alltaf svona í Bandaríkjunum. En svo jókst frelsi Bandaríkjamanna, og þá kom árangurinn. Þeir þutu fram úr okkur. Árangurinn kom með auknu frelsi. Það sama átti sér stað á Íslandi. Þessvegna er Ísland ríkt land í dag.

Ísland passar ekki inn í ESB vegna þess að ESB mun alltaf þróast meira og meira í að verða efnahagssvæði á ánauð hinna stóru opinberu kassa og verða stjórnað í gegnum risastóra kassa embættismanna. ESB er leiðin til fátæktar og leiðin til ánauðar. Hvorki meira né minna.

Hayek hafði rétt fyrir sér og Keynes hafði rangt fyrir sér. Því miður er stærsta arfleið Keynes sú að hann fékk stjórnmálamennina til að halda að þeir gætu stýrt öllu sjálfir og það show keyrir núna fyrir fullum skrúða hér í ESB.

Vesturlandabúar vita afskaplega lítið um Bandaríkin. Flest sem þeir vita var snilldarlega plantað í heila þeirra af vinstrihreyfingunni frá og með lokum seinni heimsstyrjaldar. En eftir öll þessi ár og eftir allann þennan stóra opinbera geira hér, þá er það samt svo, að það er ENNÞÁ erfiðara fyrir einstaklingana að brjótast úr fátækt hér í Skandinavíu en það er í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn hafa auðvitað sín vandamál að glíma eins og aðrar þjóðir. En ameríkuhatur vinstrihreyfingarinnar á vesturlöndum er út í hött. Það er búið að eyðileggja nóg fyrir okkur og samskiptum okkar við vini okkar í Bandaríkjunum.

Umsvif hins stóra opinbera geira í mjög mörgum löndum ESB eru núna stærri en hann var í styrjaldarhagkerfi Bertlands í seinni heimsstyrjöldinni. Miklu stærri !!! Þetta mun veðra eyðileggjandi fyrir alla framvindu mála í ESB. Við búum í styrjaldarhagkerfum Albert! En við hverja er verið að heyja styrjöld? Jú, það er verið að heyja styrjöld við frelsi einstaklingana í þessum samfélögum. Við athafnafrelsið sem er uppspretta velmegunar. Þess vegna verður ESB fátækara og fátækara og það er engin þörf á að Íslendingar muni hjálpa þeim og sjálfum sér við að koma sér á kassann. Nýja Þjóðkirkjan í ESB verður Ríkið og Kassinn. Prestarnir verða embættismennirnir.

Það þarf enginn að vera í ESB til að geta hugsað sjálfstætt. Ísland er besta sönnunin fyrir því.

Þú skrifar um þessa venjulegu misskiptingu sem allir alltaf nefna þegar þessi mál um þjóðir og samfélagsform ber á góma. Í stuttu máli er hægt að lýsa þessum mun svona:

1) Í styrjaldarhagkerfum eins á mörgum stöðum hér í ESB, þá er leitast við að gera alla jafn fátæka.

2) Í hagkerfum eins og t.d. í Bandaríkjunum er leitast við að gera alla jafn ríka.

En það verða aldrei allir jafnir. Það er ekki hægt.

Þú skrifar um misskiptingu í Bandaríkjunum. Það er ekki hægt að skrifa um þetta á stuttum nótum því þetta er flóknara en svo. Ég skrifa því aðeins örstutt um þetta, því þetta virðist liggja svo ofralega í huga margra sem bú utan Bandaríkjanna:: Viðmiðunarmörk fátæktar eru miklu hærri í Bandaríkjunum en í Skandinavíu. Þess vegna koma Bandaríkjamenn alltaf verr út úr OECD tölum um fátækt í prósentum. En það er aldrei talað neitt nánar um að þessi viðmiðunarmörk. Svoleiðis hafa fátækustu þegnar í Svíþjóð og í Finnlandi til dæmis lægri tekjur en þeir fátækustu í Bandaríkjunum. Þetta er vegna þess að Bandaríkin eru svo ríkt land. Median er einfaldlega miklu hærra þar. Annað dæmi: þeir ríku í Norður Kóreu eru fátækari en þeir fátækustu í Suður Kóreu.

Gunnar Rögnvaldsson, 27.5.2008 kl. 11:12

9 identicon

 Kæri Gunnar.Það eru ódýr rök að segja að þeir sem ekki eru sammála þér vanti þekkingu. Veröldin okkar er nú þannig að flest allt sem við gerum á sér rætur í því sem við skiljum og þá skilgreinum út frá hagkvæmi, siðgæði, réttlætiskennd o.s.frv. Þú tekur ekki mark á skýrslum Sameinuðu Þjóðanna um umhverfismál og þaðan af síður málflutningi Al Gore þrátt fyrir að á bak við þessi álit séu þúsundir vísindamanna um allan heim. Ef það eru þúsundir vísindamanna sem andmæla þessu eru raddir þeirra mjóróma eða málflutningurinn ekki sterkur. Í rauninni er varla lengur um það deilt í vísindaheiminum í dag að upphitun jarðarinnar sé af völdum manna, þess sem við aðhöfumst. Að skella skollaeyrum við þessu er sjálfsagt þægilegt ef tilgangurinn er að réttlæta efnahagskerfi og samfélagskerfi sem er dauðadæmt ef þau þurfa að taka tillit til umhverfisins. Ég sé að þú lítur mikið upp til Regans og Thatchers og því sem þau skötuhjúin komu til leiðar, nefnilega að takmarka áhrif opinbera geirans og auka áhrig einkaframtaksins. Við erum sjálfsagt ekki sammála um það, en í Bretlandi hafði þetta skelfilegar afleiðingar sem þeir eru ennþá að súpa seyðið af. Á þessum árum fluttist fjármagnið í stórum stíl frá framleiðslu raunverulegra verðmæta til fjármagnsgeirans, sem fékkst við að pressa ennþá meiri gróða út úr því sem þegar var búið að framleiða.  Vöxtur fjármálageirans varð ekki bara ör heldur líka risastór, en á bak við hann var ekkert. Hlutur fjármagnsgeirans í heildargróðanum jókst frá ca 6 % laust eftir 1980 til 40 % árið 2007. Það er kanski rangt að segja að ekkert hafi búið að baki. Að baki bjuggu væntingar og hlutabréfin hækkuðu í takt við væntingarnar. Það segir sig sjálft að og það hljóta allir Siglfirðingar að skilja að svona kerfi er ekki sjálfbært, það kemur að skuldadögum þegar væntingarnar verða neikvæðar (eða síldin er ofveidd). Þú mannst kanski ekki eftir dot.com bólunni. Sumir segja að fjárfestar hafi tapað a.m.k. 7000 milljörðum dollara. Alli ríki þeirra bandaríkjamanna (Alan Greenspan) kom þá til skjalanna og lækkaði vextina niður úr öllu. Dansinn hélt áfram og fjárfestar fóru að spekúlega í fasteignum og þá helst íbúðum. Nú er, eins og þér er eflaust kunnugt um, húsnæðisbólan sprungin líka. Hvert fer þá fjármagnið laust og liðugt? Jú nú er það minn kæri frændi, matvælin sem eiga að ávaxta pundið. En þetta eru ekki Silli og Valdi. Þetta eru ekki kaupmennirnir á horninu eða litlu sætu sveitabankarnir sem eru yfirfullir af “social capital” (félagslegri umhyggju). Hér er komið að því að ekki duga lengur hráar hagfræðiformúlur. Það er ekki lengur hægt að stýra efnahagsþróuninni með því að leiðrétta kúrsinn eða grípa inn í makróökónómíuna. Samhengið milli áhrifaþátta sem rista ennþá dýpra hefur leitt til þess að þróunin er farin af sporinu. Olíukreppan, matvælakreppan og umhverfiskreppan eru áhrifaþættir sem ekki verða leystir með því að trixa vexti eða prenta seðla í Bandaríkjunum (þó stór séu). Það er gífurleg umframgeta í framleiðslukerfinu sem hrópar á meiri neyslu. Meiri neysla gengur á náttúruauðlindir jarðar og umhverfiskreppan er það núþegar.

Sem betur fer eru það fleiri og fleiri sem sjá að þessi óhefta markaðshyggja og trúin á hagfræðilausnir er ekki fær leið. Þeir sem höndla með fjármagn og afrakstur erfiðis vinnandi fólks þurfa aðhald og að það sé passað upp á að allt sé með felldu. Þess vegna Gunnar er það kanski bara allt í lagi að hafa MÖMMU þarna til þess að passa upp á að heimilisreksturinn gangi vel og að vel sé leyst úr hagsmunaárekstrum.

Einnig - fólk flest og ég með vill heldur búa í styrjaldarhagkerfi án stríðs en í hagkerfi sem byggist á því að vera í stöðugu stríði við allt og alla. Það er ekkert land í heiminum sem hefur eins aggressífa verndartollamúra og Bandaríkin á sama tíma og þau vilja sjálf inn á aðra markaði og telja að bara sjálfsagt.

  

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 07:35

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kæri Albert


Frelsið er það mikilvægasta sem við höfum. Það er undirstaða velmegunar. Hér ég einnig við efnahagslegt frelsi og athafnafrelsi. Öll velmegun okkar byggist þessu frelsi. Það er hægt að líkja frelsinu við vöðvabúnt heilans. Ef það er ekki notað þá visnar það. Eðli ríkja með stóra opinbera geira, embættismannavelda, og stórra kerfa með opinberum áætlunargerðarmönnum og skriffinnum, er það, að það mun alltaf leitast við að minnka frelsi einstaklinganna því þessir opinberu menn vita jú alltaf betur en einstaklingurinn hvernig á að standa að öllum málum. Þetta eru samt oft menn sem vilja vel. En þeir geta aldrei komið í stað vöðva frelsisins hjá frjálsum einstaklingum. Þegar embættismenn og stjórnmálamenn lama þessa vöðva hjá einstaklingunum, vegna þess að þeir verða notaðir í of litlum mæli vegna forsjárhyggju yfirvalda, að já, þá mun það verða ánauðin og loks þrælkunin sem mun knýja úrverk hagkerfa þessara þjóðfélaga, því frelsishugsun einstaklingana visnaði. Ekkert verður hægt nema með hjálp hins opibera, eins og í gamla Sovét.

Þó svo að þú viljir kanski ekki kalla fjárfesta, fjármálafólk, bankamenn, braskara og hagfræðinga fyrir vinnandi menn, þá er það einusinni svo að til þess að hægt sé að draga fiskinn úr sjónum, að þá þarf að finna fiskinn, finna svo upp bátinn, finna upp veiðarfærin, fá skipaarkítekta til að hanna góðann bát sem sekkur ekki, skipasmiðina til að byggja bátinn, finna upp góðar raflangir, siglingatæki og þar fram eftir götum. Svo mun bíða allra það stóra vandamál að færa fiskinn til markaðar, þ.e. að markaðsfæra og selja fiskinn. Þetta krefst svo að það séu til markaðir og viðskiptataugakerfi sem virka. Bankareikningar og frelsi til gjaldeyrisviðskipta. Allt þetta þarf svo að fjármagna. Það þarf að fjármagna laun til sjómanna, ráða góðan skipstjóra og mannskap. En fyrst og fremst þá þarf að taka áhættu. Það er ekki hægt að biðja alla að vinna launalaust á meðan hagnaður fæst heim í hús. Til þess að þetta geti átt sér stað þá þarf fjármögnum. Það þurfti að fjármagna ferð Kólumbusar. Það þarf góða banka og fjárfesta.

Dot.com bólan var merkileg að því leyti að hún var fyrsta stóra bólan frá því að bílar og rafmagnstæki komu til markaðar í byrjun 20. aldar. Þetta var fyrsta skeið brautryðjandi framfara þar sem allir voru ósammála um hvað væri hægt að gera úr þessu. Enginn vissi hvað þetta myndi hafa í för með sér. En hugaðir fjárfestar stukku samt í kaldann sjóinn, oft án björgunarvestis, og fjármögnuðu uppfinningar og tiltök brautryðjenda og frumkvöðla. Margir fjárfestar urðu illa úti. En það er einmitt kosturinn við að hafa virka vöðva frelsisins - að þora að taka áhættu og þora að tapa peningum. Allir fjárfestar vita að það er aldrei hægt að græða á öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Það er vegna þessara virku vöðva frelsisins að Bandaríkjamenn fengu fyrirtækin, atvinnutækifærin, afleiðurnar og hagvöxtinn sem við fengum ekki. Þessi tækifæri sigldu að mestu fram hjá Evrópu og við drógumst enn frekar aftur úr Bandaríkjunum. Frumkvöðlarnir fóru til Bandaríkjanna því þar gátu þeir fengið hugmyndir sínar fjármagnaðar.

Þegar stóra hrunið kom á Wall Street árið 1929. Þá skeði það sama og er að ske í dag. Menn misstu trú sína á framtíðina og hlupu heim til mömmu. Fjárfestingar flæddu úr framtíðartækifærum og yfir í vörur gamla tímans. Sumir veltu fyrir sér hvort þeir ætti ekki að halda áfram fjárfestingum í hestasvipuverksmiðjum, því bílar voru allt í einu orðnir eitthvað svo áhættusamir sem fjárfesting. Menn urðu hræddir. Mamma kom svo fram á sviðið í formi hins opinbera, og þá fyrst fór kreppan fyrir alvöru af stað. Keynes tókst að selja stjórnmálamönnum þá hugmynd að markaðsöflin gætu ekki ráðið við ástandið. En þeir höfðu rangt fyrir sér. Þeir höfðu gleymt að fylgjast með peningamagni í umferð. Þurrðin kom. Arfleið hins opinbera kassa Keynes boraði svo stór göt í vöðva frelsisins í Bandaríkjunum allt fram að tímum Reagans.

Suðið um hlýnun jarðar af mannavöldum er einungis enn ein tilraunin til að koma skóflunni undir kapítalismann. Það tókst ekki með tilkomu USSR og heimsbyltingu kommúnismans, sem fór í vaskinn. Það tókst heldur ekki með lágfreyðandi heilþvottastarfsemi vinstri manna á vesturlöndum í kalda stríðinu, og það tókst ekki í ólátunum á sjöunda átatugnum. Það mun heldur ekki takast núna með suðinu um hlýnun Jarðar af mannavöldum. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þegar menn segja að allir séu sammála um vísindakenningu sem byggist á trú, að já, þá veit maður að þetta er einungis áróður. Vísindamenn hafa aldrei verið sammála um neitt sem ekki er sannað. Það er ekki til það sem sumir kalla "scientific consensus" og hefur aldrei verið til. Það eru fullt af færum vísindamönnum sem eru einmitt ósammála hér. Þeir megna bara ekki að hafa eins hátt og hinir. En góð vísindi munu sigra að lokum. En þegar það loks skeður þá munu allir vera búnir að gleyma kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum alveg eins og kenningunni um komandi ísöld á sjöunda áratug síðustu aldar.

Gunnar Rögnvaldsson, 28.5.2008 kl. 16:05

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Afsakið, ég skrifaði ..

Þetta var fyrsta skeið brautryðjandi framfara þar sem allir voru ósammála um hvað væri hægt að gera úr þessu

. . en þetta átti auðvitað að vera . .

Þetta var fyrsta skeið brautryðjandi framfara, síðan bílar og rafmagnstæki komu til markaðar, þar sem allir voru ósammála um hvað væri hægt að gera úr þessu. Sem sagt bóla, því svona sjaldgæfir atburðir skapa bólur, þar sem enginn er sammála um framtíðina.

Gunnar Rögnvaldsson, 28.5.2008 kl. 16:22

12 identicon

Kæri Gunnar.
Áður en ég læt þessum orðaskiptum við þig lokið af minni hálfu vil ég segja þetta. Það er ekki eins og við búum á sömu jörð né heldur að við ræðum saman. Það ber ekki vott um hæversku að setja sig á svo háan hest að maður missi sjónar af skynseminni. Ekki vil ég andmæla rétti þínum til þess að trúa og ég er tilbúinn til þess að ræða málin út frá trú þinni. Það er samt ákaflega erfitt að ræða málin þegar allir aðrir en þeir sem tilheyra þínum söfnuði eru annaðhvort vondir, vitlausir, hafa duldar tilætlanir eða eitthvað annað sem gerir að þeir hafa ekkert til síns máls. Það er mikill munur á vísindum og trú og þó vísindin hafi ekki alltaf rétta niðurstöðu (sannaða) þá hafa þau aldrei haldið því fram að jörðin sé flöt. Þín trú á "hagfræðikenningar" og postulötin um "frelsi einstaklingsins" er ákaflega barnaleg og á sér litlar stoðir í vísindum og enn síður í raunveruleikanum. "Frelsi einstaklingsins", eins og mér virðist þú skilgreina það á lítið skylt við frelsi eins og það er það er skilgreint m.a. af Sameinuðu þjóðunum (mannréttindarsáttmáli og víðar). Með þessu læt ég mínum þætti hér lokið.
Kærar kveðjur. 

Albert Einarsson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 07:08

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kærar kveðjur til þín og þinna Albert

- og kærar þakkir fyrir spjallið.

Gunnar Rögnvaldsson, 29.5.2008 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband