Leita í fréttum mbl.is

Segir Donald Trump satt um að NATO sé úrelt - eða ekki?

Er þetta rétt hjá forsetanum? Og hver hefur áhuga á sannleikanum?

Til að svara því þá verða menn fyrst að spyrja sig þessarar spurningar: Ef við gefum okkur að NATO sé úrelt, fyrir hverja er varnarbandalagið þá úrelt og fyrir hverja það þá ekki úrelt?

NATO var stofnað sem varnabandalag Bandaríkjanna og Evrópu gegn hættu frá Sovétríkjunum. NATO átti að verja Evrópu og Norður-Ameríku gegn hættunni frá Sovétríkjunum.

Evrópa var í rúst vegna heimsveldisdrauma Þýskalands og markmiðs Versalasamningsins um að viðhalda valdaójafnvægi á meginlandinu vissum aðilum í hag, en öðrum ekki. Sá samningur var vopnaða útgáfan af evru og myntbandalagi Evrópusambandsins (EMU)

Efnahagur og sjálfstraust Evrópu var í rúst. Efnahagur Bandaríkjanna var ekki í rúst og sjálfstraust þeirra var í lagi. Efnahagur Íslands var einnig í rúst vegna kúgunar öldum saman og sjálfstraustið var næstum ekki neitt, en fór samt batnandi vegna 1918 og 1944. Vonin bjargaði okkur

Bandaríkin höfðu þá mikilla varnarhagsmuna að gæta á meginlandi Evrópu. Kalda stríðið var tilvistarógn gagnvart þeim og Evrópu og Íslandi

Bandaríkin sáu auman á Evrópu og stofnuðu NATO sér til varnar, og til varnar Evrópu, og Íslandi

Bandaríkin borguðu brúsann - allan

Frá því að þetta var staðan hefur margt breyst þökk sé Bandaríkjunum. Bandaríkin hjálpuðu Evrópu að rísa á fætur með örlátum gjöfum og gerræðislega kostnaðarsamri öryggis regnhlíf sem kom í veg fyrir að Sovétríkjunum rigndi niður á þá sjálfa og Evrópubúa sem voru á vestrænu áhrifasvæði Bandaríkjanna. Evrópa lifði og andaði undir varnarregnhlíf Bandaríkjanna. Vegna þessa varð Evrópa rík, en Sovétríkin og leppríki þeirra urðu fátæk

Sovétríkin detta svo í sundur vegna fátæktar. Þau höfðu ekki efni á sjálfum sér eins og Evrópa hafði ekki efni á sjálfri sér í rústum Þýskalandskeisarans Adolfs Hitlers. Hún þurfti hjálp og fékk hana. Bretland fékk enga hjálp en veitti hins vegar Evrópu og Íslandi hjálp og verndaði hana og okkur

Vegna þessa varð Evrópa rík. Það gat hún orðið vegna þess að hún fékk gjafir og vernd. En núna eru engin Sovétríki til sem ógna Evrópu. En Evrópa getur samt ekki varið sig. Bandaríkin verja hana ennþá. Hagkerfi Evrópu er stærra en hagkerfi Bandaríkjanna. Og 200 milljón manns fjölmennari. Evrópa er rík og hún er rík vegna verndar og gjafa Bandaríkjanna. Ísland er líka ríkt en gerir ekkert. Gerir sjálft lítið sem ekkert sér til varnar. Hvað er að?

NATO á að heita varnarbanalag. En í fyrsta skiptið sem 5. grein sáttmálans var virkjuð, þá brugðust bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu að mestu. Ekki alveg, en samt að mestu. Það gerðist þegar íslamistar réðust á Bandaríkin 11. september 2001. Sólarhring síðar var 5. grein NATO virkjuð vegna ákalls frá Bandaríkjunum til að lögga himininn yfir þeim (operation Eagle Assist, október 2001 til maí 2002). Bandaríkin stóðu næstum því ein, nema að því leyti að NATO gat skaffað AWACS, en sem Bandaríkin áttu þó sjálf. Gagnslaust og úrelt drasl evrópska meginlandsins tók aðeins að litlu leyti þátt í og bara vissum aðgerðum á erlendri grund. Aðeins Bretland stóð að fullu með Bandaríkjunum

Þýskaland og Frakkland neituðu þess utan í kjölfarið að rétta Bandaríkjunum hjálparhönd í bæði fyrsta og öðrum fasa eftirmálans; Afganistan og Írak. Þar breyttist sambandið á milli Bandaríkjanna og annars vegar Þýskalands og Frakklands á afgerandi slæman hátt. Þýskum hermönnum er þess utan bannað að taka þátt í bardögum þar sem þeir koma við sögu í NATO ISAF. Herafli NATO getur ekki einu sinni ferðast yfir landamæri margra NATO-ríkja í sjálfri Evrópu nema með því að bíða í 5 daga eftir leyfi frá yfirvöldum viðkomandi landa. Herveldi Eistlands gegn Rússlandi er til dæmis aðeins sex þúsund manns á friðartímum og helmingur þeirra eru í honum vegna herskyldu. Hinum megin við landamærin, sem fíflkerlingar segja í Evrópu að séu úrelt fyrirbæri, stendur 60 til 100 þúsund manna herafli Rússlands á þessum hluta Vestursvæðis rússneska hersins.

Virkjun NATO gegn Rússum við austurjarðar NATO-svæðisins er næstum því til að hlægja að. Þau fjögur lönd sem kalla sig Visegrad-löndin (V4) -Pólland, Ungverjaland, Tékkland og Slóvakía- ætla til samans að senda 600 hermenn til Eystrasaltsríkjanna, eða 150 hver, á þessu ári og Þýskaland 200 hermenn með sín kústsköft. Á þessu ári munu Bandaríkin hins vegar sjálf og stranglega tvíhliða hafa sett inn fullvopnaða 5-8 þúsund manna herdeild og tæplega þúsund topp tjúnaða skriðdreka á þessum væng og sem er meira en helmingi meira en allur styrkur NATO er á þessu heita svæði. Allur hinn gangfæri skriðdrekafloti alls Þýskalands er aðeins 220 stykki af úreltum Leopard2 brandara frá 1970. Hvað á þetta að þýða?

Bandarískir skattgreiðendur og mannslíf eru lögð beint að veði beint framhjá NATO til varnar Evrópu! Af hverju er þetta svona? Jú vegna þess að þegar að NATO ríkjum Evrópu kemur þá eru fyrirvararnir svo margir á þátttöku þeirra í aðgerðum, að vonlaust er að eiga við það bákn á neyðarstund. Til dæmis voru í gildi 83 þátttöku-fyrirvarar evrópskra ríkisstjórna NATO-landa innan ISAF-herfaflans í Afganistan

Summa summarum:

Sovét er dautt. Tilgangur NATO var að mæta ógninni frá Sovét. Sjálft skotmark NATO er horfið. Hvað á það þá að miða á? Bara eitthvað út í loftið?

Evrópa er rík og Ísland er ríkt, en Bandaríkin aumkvuðu sig þó samt yfir fyrrverandi leppríki Sovétríkjanna þegar þau losnuðu mölbrotin undan oki þeirra, og samþykktu þeirra vegna að standa áfram sem ábekingur NATO á meðan þau ríki væru að koma sér á fætur og innlima sig sjálf inn í herstjórnarkerfi Vesturlanda, sem er viðamikil stofnun. Síðan þá eru liðnir áratugir

Bandaríkin sjálf njóta lítils gagns af NATO vegna þess að Sovét er dautt. NATO gagnast ekki hagsmunum Bandaríkjanna í Evrópu. Þess vegna snúa þau sér beint til Intermaríum ríkjanna og ganga þar tvíhliða til verks; með tvíhliða samningum um varnir þeirra. Þar er NATO bara til athlægis og jafnvel beinna trafala með sinn hernaðarlega kústskaftaskóg meginlandsins

Ef einhver getur sagt mér að NATO sé ekki úrelt vegna þess að það er gamalt og gagnslítið fyrir þann sem borgar fyrir það, þá má viðkomandi mjög gjarnan svara mér með rökum um að svo sé ekki

Fyrir meginland Evrópu og Ísland er NATO hins vegar ekki úrelt, því þau fá þar allt gratís á kostnað Bandaríkjanna. Þannig félagsskapur er ekki bandalag, heldur sogrör þeirra ofan í Bandaríkin. ergo: NATO er í reynd úrelt stofnun. Donald Trump segir satt

Ísland er ekki mikilvægt fyrir Bandaríkin lengur. Að minnsta kosti ekki eins og er. Það getur hins vegar hæglega orðið það aftur. En hin krónísku pólitísku vandræði við land eins og Ísland, sem virðist ekki kunna að skammast sín, eru svo mikil að landföst herstöð fyrir Bandaríkin er ekki eins álitleg og fljótandi herstöð. Mitt álit er að NATO sé úrelt af því að það er gamalt og að Bandaríkin viti það mjög vel. Og að í stað þess munu koma tvíhliða sáttmálar við hvert ríki fyrir sig eins og er að gerast í Intermaríum ríkjunum

Við verðum að taka málin í okkar hendur og að minnsta kosti vera fær um að lögga lofthelgi okkar eins og landhelgina og sjá um fyrstu varnir í þær klukkustundir sem það tekur Bandaríkin að koma á vettvang og að þeir hafi þá sanngjarnan rétt til að lenda hér og vera hér með sínar ómetanlegu græjur okkur og þeim til varna án hins eilífa pólitíska aumingjakjaftæðis allt of margra í okkar bandarískt blessaða landi. Það er staðreynd að Bandaríkin hafa blessað Ísland og gera enn. En þeir hafa ekki þolinmæði í endalausan aulahátt okkar

En eins og er þá er held ég að skömm okkar sé mikil í augum Bandaríkjanna. Mér finnst það sálfum, en ég vona að ég sé svo illa að mér í þessum efnum að ég hafi algerlega rangt fyrir mér. Ég vona það

Takk

Fyrri færsla

Bretland losar sig við hlut sinn í Evrópusambandinu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kallinn hefur fylgst með og eðlilega tekið upp þykkjuna fyrir þjóð sína.

Helga Kristjánsdóttir, 20.1.2017 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband