Leita í fréttum mbl.is

Vegur 1945-heimsskipan endar hér

SUNNUDAGUR

Réttara væri í þessari tilgátu-frétt (sjá neðst) að segja að Steve Bannon vill vernda bandarísku þjóðina gegn því sem gerðist árið 2008, þ.e. að slíkt gerist ekki aftur; að fjármála- og embættaveldið (sérfræðingar) sé áfram með þjóðina í fjölþjóða-gíslingu "multilateral"-ismans. Að það megi ekki að koma til aftur að skammbyssa þess veldis geti fyrirvaralaust kreist út úr þjóðinni það eina sem hún á; lýðræðið - til að stinga því upp í sérfræðinga-gjaldþrot þess veldis á nýjum barmi gjaldþrots sérfræðinganna

Það er erfitt að rýna í það sem er að gerast í bandarískum stjórnmálum núna. Jafn erfitt og var að reyna geta sér til um stjórnmálastefnu Bandaríkjanna á tímabilinu frá 1929 fram til árásarinnar á Perluhöfn. Og eins og menn kannski muna, þá neitaði bandaríska þingið að samþykkja og þar með staðfesta ófriðar friðar-samningana sem kenndir eru við Versali. Samninga sem Wilson forseti Bandaríkjanna hafði skrifað undir á meðan hann var sex mánuði að semja þá í París á "friðarráðstefnunni" þar 1919. Já, sex mánuði á Parísarsamkomu að gera Parísarsamkomulag. Ef hann hefði heitið "Trump" þá veit ég, sannarlega ég segi þér, ekki hvað hefði gerst. Evrópubúar reyndu á þessum tímum að lokka Bandaríkin inn á sérsvið meginlands þeirrar álfu; einræðis, kommúnisma, nasisma, fasisma og annarra stjórnarfarslegra afskræminga sem meginlandið er svo sérfrótt í, en það tókst ekki

Í dag er meginland Evrópu á ný á leið inn í gömlu draumana sína; Evrópusambandið, sem er að hrynja, reynir að bremsa að lýðræði geti í praxís þrifist neins staðar á meginlandinu. Það úðar eitri sínu á allt sem minnir á lýðræðislegt stjórnarfar. Það dæmir þjóðir í skuldafangelsi og það reynir að annúllera niðurstöður kosninga með því að koma í veg fyrir að niðurstöður þeirra komist til framkvæmda. Það sendir hersveitir til þeirra landa í sambandinu sem reyna að taka mark á kjósendum. Því meira sem sambandið hamast, því meira langar fólkinu að komast út eða drepa sambandið, sem öðlast hefur sitt eigið umboðslausa líf. Og það er fólkið einmitt að gera

Sem eitt sönnunargagn þessu til vitnis, má nota sérstakan þrútinn áhuga vinstrimanna á Evrópusambandinu frá og með 1992, er það með einum Maastrichtsáttmála breytti sér með langdregnu lagalegu lygaferli í yfirríki yfir öllum ríkum sambandsins. Vinstrimenn og kratar, þ.e. sósíalistar, laðast að svona stjórnarfarslegum óferskjum eins og mý að mykjuskán. Saga þeirra sannar það

Sú skipan heimsmála sem komst á í kjölfarið á 1945, er nú að renna sitt síðasta skeið: sérfræðingaveldið sem átti að bjarga heiminum er komið í þrot. En það veldi var ekki betra en svo að það sjálft klessukeyrði veröldinni árið 2008, og hún getur ekki rétt úr sér á ný. Það eina sem bjargaði veröldinni frá því að falla alveg saman undan þunga sérfræðinganna, voru gömlu björgunarbátar þjóðanna: þjóðríki fólksins, fullveldi þess, sjálfsákvörðunarrétturinn, landamærin og þjóðarherinn sem sér um þjóðarvarnir gegn alþjóðlegum sérfæðingum

Allt alþjóðaveldi sérfræðinganna brást. Ekkert í því virkaði. Enda var það sjálf ástæðan fyrir óförunum. Þetta ókjörna sérfræðingaveldi veraldar er auðvitað bara verndaður vinnustaður vesalinga. Það máttu allir sem hugsa, vita að myndi gerast

Fyrri heimstyrjöldin var kerfislæg stórstyrjöld sem varð til er þrjú ný ríki risu upp úr veraldarhafinu: Þýskaland, Japan og Bandaríkin. Ris þeirra olli kerfislægum stórsjó. Það þurfti að búa til pláss fyrir þau. Og Síðari heimstyrjöldin var framhaldið á þeirri fyrri. Sú fyrri endaði aldrei, hún hélt bara áfram. Alveg eins og árið 2008 hefur ekki endað enn

Það er oftast sama ferlið sem veldur kerfislægum stórstyrjöldum: þ.e. fall og ris ríkja í veraldarhafinu. Þannig að það sem finna þarf út úr núna, er þetta: hvaða ríki/veldi eru rísandi og hvaða ríki/veldi eru fallandi. Vitir þú það þá veistu mikið um framhaldið. Allir héldu til dæmis að Þýskaland væri búið að vera árið 1919. En svo var ekki. Og allir héldu til dæmis að Japan væri að yfirtaka heiminn árið 1989, en þá var það hins vegar að byrja að falla saman, þvert á kenningar sérfræðinga. Við skulum ekki minnast á skyndilega uppgufun Sovétríkjanna og allt hið risavaxna sérfræðingaveldi þess, þvert á allar spár hinna akademísku sovét-sérfræðinga Vesturlanda. Fjölmiðlar okkar vissu auðvitað minnst allra um hvað var að gerast. Þess vegna heita þeir miðlar. Þeir halda miðilsfundi. Þeir geta einfaldlega ekki gert neitt annað

Þegar staðan er svona, þá gera Bandaríkin það sem þau gera best; þ.e. þau gera ekkert. Bandaríkin eru eyja sem ekki er hægt að stúta. Þau hörfa heim á eyjuna sína. Þau halda sig til hlés, byggja upp ofurefli og slá til með því á réttu augnabliki og handtaka veröld afglapa á ný og koma þannig á nýrri heimskipan, mörgum til mikillar gremju. Þannig er þetta bara

Tími Bandaríkjanna sem "piss-off" ríkis er runninn upp á ný. Þau munu fara óstjórnlega í taugarnar á mjög mörgum, sérstaklega þeim sem aðhyllast einræðislegt stjórnarfar og stjórnleysi

Sem sagt: hvaða ríki eða veldi eru fallandi? Og hvaða ríki eða veldi eru rísandi? Það er spurningin. Ég hef mínar tilgátur um það eins og aðrir. En um stund þá held ég þeim fyrir sjálfan mig. Ég þarf að stúdera þetta aðeins nánar

En það var rétt hjá Reuters í síðustu viku að sá fatnaður sem Kína er að flytja út til Vesturlanda, er að hluta til framleiddur í verksmiðjum í Norður-Kóreu. Ástralska fyrirtækið Rip Curl komst að þessu þegar á síðasta ári. Þetta hefur því verið vitað um hríð, en ekkert er gert. Þeir sem eru ánægðir með vissa flatskjái sína ættu að hugsa um þetta. Svo kallaðir "fjárfestar" bíða nú í hrönnum eftir að fá að fjárfesta í Norður-Kóreu, því þar er svo ódýrt vinnuafl. Einhver heyrt þetta áður !?

Böndin á milli Norður-Kóreu og Írans eru sterk. Þið munið ef til vill eftir Írak-Íran styrjöldinni sem varð mannskæðasta styrjöld seinni hluta 20. aldar. Það var Norður-Kórea sem skaffaði Teheran þær eldflaugar sem gerðu þá styrjöld að því sem hún varð. Í staðinn greiddi Íran upp olíuskuldir Norður-Kóreu, því hún var að komast í peningalegt þrot. Og í staðin fékk Íran sjötíu prósent afslátt í eldflaugaverslun Norðursins. Þannig mun þetta líka verða með kjarnorkuvopnin og er reyndar þegar orðið þannig, eins og sést á Íran í dag. Það er komið "godt i gang"

Er því ekki bara best að Bandaríkin haldi sig til hlés og passi púðrið sitt á meðan veröld sérfræðinnar stútar því sem strútur þeirra hinn mikli vill í sínum sandi. Sveitamaðurinn ég, bara spyr

Yfirstandandi álagspróf Donalds Trump á stjórnkerfi Bandaríkjanna ganga bara vel. Kerfið virkar. Enda vildu stofnendur Bandaríkjanna alls ekki að "sterk ríkisstjórn" gæti orðið til í landinu sem þeir voru að smíða - eins og sögulega var og er raunin víða í Evrópu og Asíu. Bara alls ekki. Þetta eru mikil og góð meðmæli með Bandaríkjunum. Þau virka

En kerfislæg stórstyrjöld í henni veröld kemur. Það er öruggt. Lengra verður ekki haldið eftir vegi ókjörinna sérfræðinga og embættismanna, því þeir reyndust ekki vera neinir sérfræðingar. Bandaríkin hefðu líklega aldrei átt að láta til leiðast að skrifa undir það sem orðið er að stofnsáttmálaveldum Sameinuðu sérfræðinganna

Fyrri færsla

Farsi: Barcelona "örugg borg" [u]


mbl.is Valdameiri utan Hvíta hússins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. ágúst 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband