Leita í fréttum mbl.is

Guam-hótun Norður-Kóreu stendur óhögguð enn

Lockheed EC-121T Warning Star þann 4. október 1978 í Keflavík - Ljósmynd Baldur Sveinsson

Mynd: Lockheed EC-121T í Keflavík 4. október 1978. Ljósmynd: Baldur Sveinsson. Norður-Kórea skaut svona vél Bandaríkjahers niður árið 1969. Nixon gerði ekkert

Fjölmiðlar hafa gengið niðaröldum fréttaóssins á hönd og varpað önd sinni laufléttri fyrir fólkið. Hótun Norður-Kóreu um að senda eldflaugar áleiðis til Guam og til niðurkomu þar, stendur óbreytt enn

Það eina sem gerst hefur er að leiðtogi Norðursins hefur hvatt Bandaríkin til að stöðva "hótanir" sínar í garð Norðursins, því annars mun sú áætlun sem herstjórn Norðursins sem leiðtoginn talaði um þann 10. ágúst, koma til framkvæmda. Leiðtoginn sagði að það tæki herinn um það bil tvær vikur að hamra áætlunina um Guam-eldflaugasendingu saman

Áætlunin um árás á Guam-hluta Bandaríkjanna hljómaði svona: Hrinu af fjórum Hwasong-12 miðlungsdrægum eldflaugum, þ.e. með 3500-5500 km. drægni (e. Intermediate-range ballistic missile) verður skotið á loft og þær látnar fljúga yfir Japan og lenda 17 mínútum síðar í um það bil 30-40 kílómetra fjarlægð frá Guam (til dæmis við hvalstöðina í Hvalfriði, ef um Reykjavík væri að ræða). Þegar þessi áætlun er tilbúin til framkvæmda verður hún af hernum kynnt fyrir leiðtoganum um miðjan ágúst. Í dag er 16. ágúst

Þessi áætlun er skilyrt hótun um árás á Guam ef Bandaríkin láta ekki af þeirri hegðun sem neyða myndi Norðrið til að framkvæma hana. Sem sagt: gefin er út hótun sem skilyrt er því, að þeim sem hótað er, geri ekki það, sem sá sem hótar, vill ekki að hann geri

Ulchi-Freedom Guardian heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hefjast 21. ágúst og lýkur 31. ágúst. Það eru því fimm enn-dagar sem Norður-Kórea hefur til að reyna að stöðva þær með þessum hótunum sínum

Þann 14. ágúst varaði James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna Norður-Kóreu við því að framkvæma áætlun sína um eldflaugaskot að Guam. Hann sagði að neistar frá þeim gætu tendrað þráð styrjaldar og að Bandaríkin myndu skjóta niður alla hluti sem litið gætu úr fyrir að vera miðað á Guam. Þau ríki sem átætlun Norður-Kóreu beinist að, þ.e. Japan og Bandaríkin, hafa að líkindum, fyrir löngu síðan, komið sér saman um að fljúgandi skotfæri á borð við þessi, séu umsvifalaust skotin niður. Og við það stendur

Klukkan tifar og Norðrið reynir með þessu að koma viðleitni Bandaríkjanna, Suður-Kóreu og Kína til samhæfðra viðbragða gegn Norður-Kóreu í uppnám og að koma í veg fyrir að Ulchi-Freedom Guardian heræfingarnar geti farið fram. Norðrinu hefur þegar tekist að koma í veg fyrir samhæfð viðbrögð þessara þriggja ríkja. Það hefur mikla þýðingu fyrir Norðrið, því hver vika sem líður án handjárnunar, þrýstir landinu í átt að lokatakmarki þess: að verða kjarnorkuveldi sem enginn þorir að snerta á

- Árið 1968 rændi Norður-Kórea USS Pueblo og fangelsaði áhöfnina. Johnson gerði ekkert. Bakhjarl: Sovétríkin

- Árið 1969 skaut Norður-Kórea Lockheed EC-121 Warning Star flugvél Bandaríkjanna niður 160 kílómetrum undan strönd landsins og drap alla áhöfnina. Nixon gerði ekkert. Bakhjarl: Sovétríkin

- Undir Jimmy Carter myrti Norður-Kórea bandaríska hermenn í Panmunjom með öxi. Carter gerði ekkert. Bakhjarl: Sovétríkin

- Norður-Kórea reyndi að myrða Park forseta Suður-Kóreu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Bakhjarl: Sovétríkin

- Norður-Kórea sprengdi stóran hluta Chun Doo-hwan ríkisstjórnar Suður-Kóreu í tætlur 1983. Bakhjarl: Sovétríkin

- Norður-Kórea skaut Korean Air farþegaflug númer 858 niður og drap alla um borð 1987. Bakhjarl: Sovétríkin

- Áratugum saman hafa sérsveitir Norður-Kóreu gengið á land í Japan í skjóli myrkurs og rænt borgurum landsins til Norður-Kóreu. Bakhjarl: Sovétríkin og Kína

- Fyrir tveim vikum sprakk eldflaug Norður-Kóreu í aðeins 7 kílómetra fjarlægð frá þotu Air France á alþjóðlegri flugleið um heimshlutann. Enginn gerði neitt. Bakhjarl: Kína

Allt tal um að stríð geti hafist er því frekar furðulegt. Það er búið að vera í gangi í 65 ár og Bandaríkin, Suður-Kórea og Japan hafa borið þungar byrðar vegna þess

Mín skoðun er sú að kenningin um að stórskotalið Norður-Kóreu við suður-landamærin geti lagt stóran hluta Seoul í rúst með 350 tonna afkastagetu sprengiefna í einni umferð, sé að miklu leyti byggð á áróðri. Hefji Bandaríkin árás getur stórskotaliðið ekki bara einbeitt sér að því að drekkja óbreyttum borgurum Seoul með skotum út í loftið. Það verður að einbeita sér að þeim sem gera árás á það sjálft. Bandaríkjaher myndi því verða skotmark númer eitt. Ekki er hægt að skjóta á tvö skotmörk í einu. Um leið og hvert vopn blottar staðsetningu sína með hita, verður það umsvifalaust lagt í rúst. Það er einnig ólíklegt að herstjórn Norður-Kóreu geti starfað án miðstjórnunar eftir að samskiptakerfi landsins hefur verið þurrkað út. Liðsforingjar í þessu veldi taka ekki sjálfstæðar ákvarðanir. Þeim er miðstýrt eins og öllu öðru í landinu

En hvað veit ég, sveitamaðurinn sjálfur. Ég bý nefnilega ekki í alþjóðasamfélaginu sem virkar svona vel, þ.e. bara alls ekki

Fyrri færsla

Framleitt í Norður-Kóreu


Bloggfærslur 16. ágúst 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband