Leita í fréttum mbl.is

Staða mála í Evrópu og víðar: núna og næstu áratugi

Frans Páfi segir að Evrópa sé að falla í sundur. "Hver þjóð hefur rétt á að kjósa sér þá pólitísku leiðtoga sem hún vill" - segir hann. Hann er þarna að vísa til komandi forsetakosninga í Frakklandi

En málið þar er einmitt það, að fimmtánda stjórnarskrá Frakka og sem nú ríkir í Fimmta lýðveldi Frakklands síðan 1791, gefur frönsku þjóðinni einmitt ekki kost á því að kjósa sér þá pólitísku leiðtoga sem hún alveg endilega vill. Stjórnarskráin þeirra er með þann alvarlega innbyggða ágalla að hún talar um eins konar móral. Kosningar í Frakklandi ganga í reynd frekar, og of mikið, út á að koma í veg fyrir að eitthvað geti gerst, heldur en að stuðla að því að það sem þjóðin endilega vill, geti gerst. Hvað varðar þessar kosningar núna, þá er stjórnarskráin stór þröskuldur fyrir því að einmitt það sem Frans Páfi segir, geti yfir höfuð gerst, eins og fjöldi frambjóðenda stendur í dag og einnig margar síðustu kosningar. Það má að mörgu, en þó alls ekki að öllu leyti segja að kosningarnar séu frekar skilvirkt hræðslukerfi en hitt. Bæði til þings og forseta. En þetta er mál sem varðar Frakka sjálfa. Og vonandi er það einmitt bara þannig

Af ummælum Páfa sé ég að hann -þó svo hann segist ekki skilja frönsk stjórnmál- er vitur maður sem viðurkennir þjóðina sem pólitískan grunneiningar-hornstein Vesturlanda. Þetta fer mjög vel, því allir spáðu því að fyrirtæki hans, Kaþólska kirkjan, ætti ekki guðlegan né hvað þá heldur jarðneskan séns í Frakklandi eftir byltinguna. Að kirkjan hans yrði send til skiptaráðanda og gerð upp. En því var öðru nær. Frakkland komst af, af því að einmitt franska þjóðin ákvað að hún vildi ekki lifa án kirkjunnar sinnar. Og hvað varðar byltinguna sjálfa, þá er sennilega vonlítið að hún hefði getað myndast án frelsishugsjóna hinna Heilögu ritninga Vesturlanda, og reist þar af leitt burðarvirki hennar inn í framtíðina, samkvæmt einmitt hugsjónum þeirra

Evrópa er þó ekki að detta í sundur eins og Páfinn segir. Það sem hins vegar er að detta í sundur er niðurstaðan sem hugsuð var sem útkoman úr pólitískum dauða 100 milljón manna í Evrópu, frá 1914 til 1945. Þeir Evrópubúar dóu af pólitískum orsökum. Svipað gerðist einnig annars staðar á sama tíma. Í Sovétríkjunum gerðist þetta og í Asíu gerðist þetta líka. Þetta gerðist sem sagt á öllum landmassa Evrasíu, þ.e í öllum hinum gamla heimi, eða því sem næst

Niðurstaðan sem dregin var af þessu tímabili var sú, að draga þyrfti tennurnar úr þjóðunum og þjóðríkjum þeirra. Stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar og í dag um það bil hundrað aðrar alþjóðlegar alþjóða "alþjóðastofnanir" áttu að sjá um að þetta gæti ekki gerst aftur. Í Evrópu var gengið enn lengra því þar var stofnað yfirríkislegt fyrirbæri sem heitir Evrópusambandið, og sem í dag er sjálfstætt ríki yfir þeim ríkjum sem eru í því. Sambandið er þó ekki fullvalda enn, en unnið er dag sem nótt að því að dæla fullveldinu úr aðildarríkjunum og yfir í yfirríki Evrópusambandsins. Fullveldið getur nefnilega bara verið á einum stað í einu

En þetta kerfi alþjóðlegra og yfirríkislegra stofnana hefur þróast sér yfir höfuð, og það sem verra er, þessi fyrirbæri sem redda áttu málunum eru búin að klessukeyra heiminum svo rækilega á ný, að hann er að of miklu leyti orðinn sú stjórnlausa veröld sem Henry Kissinger varaði við fyrir áratugum síðan. Heimur á barmi stjórnleysis

Stjórnmálamenn geta einungis verið stjórnmálamenn ef þeir vita hverjum þeir eru ábyrgir gagnvart. Forsætisráðherra Íslands og ríkisstjórn hans er ábyrg gagnvart íslensku þjóðinni, en ekki Þjóðverjum né neinum öðrum. Bara hann og stjórn hans er ábyrg gagnvart hinni íslensku þjóð og enginn annar

Jóhönnu-stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna reyndi að hlaupast undan þessum frumskyldum og sem þar að auki mynduðu sjálfan tilvistargrunvöll hennar. En hún var einfaldlega kosin burt fyrir vikið. Kosin burt vegna þess að það var hægt að kjósa hana burt. Og vegna þess að sá ófrávíkjanlegi réttur til frelsis er okkur tryggður með stjórnarskrá. Okkar stjórnarskrá. Hún var kosin burt fyrir að hafa brugðist þjóðinni í miklum erfiðleikum. Menn geta því rétt ímyndað sér hvað er í gangi í samsteypu 27 þjóða þar sem ríkisstjórnir flestra landa hafa á svipaðan hátt brugðist þjóðum sínum. Brugðist þeim á altari 1945-ályktunar, og sem þess utan var röng. Stjórnir sem ekki er hægt að kjósa burt vegna þess að sú næsta sem tekur við, er einnig á pikkföstum mála hjá ESB. Algerlega sjálfkrafa og án endurnýjanlegs umboðs fyrir því að svo sé og eigi að vera

Stjórnmálamenn geta einungis verið stjórnmálamenn ef þeir vita hverju þeir eiga að stjórna en ekki stjórna. Og vita hverja þeir eiga að vernda og hverjum þeir eiga að sýna hollustu. Viti þeir þetta ekki, þá breytist það sem þeir eiga að stjórna í einmitt það sem við okkur blasir í Evrópu. Þar hefur Evrópusambandið breytt Evrópu í einn allsherjar suðupott. Þar hefur eitt Evrópusamband skapað stjórnlausar kreppur á sviði pólitísks lögmætis ríkja, rústað efnahag þjóða, lagt í eyði framtíð heilla kynslóða og rænt þær mannsæmandi framtíð - og einnig skapað tilvistarkreppur sem ekki er hægt að komast út úr án þess að drepa sjálfan sig í leiðinni

Mest öll niðurstaðan sem dregin var af tímabilinu 1914 til 1945 var þessi: Hún átti að koma í veg fyrir að þetta eða hitt gæti gerst:

a) Evrópusambandið varð and-þjóðlegt (e, anti nation) og þar með andlýðræðislegt. Það átti að koma í veg fyrir X. Sambandið er antí. Þetta hefur tekist. Evrópa sambandsins er að hrynja, eins og Frans Páfi bendir á. Evrópa er á leið niður en ekki upp

b) NATO var and-sovéskt fyrirbæri og ætti þar með að vera hætt störfum í dag. Það var antí. Sovétið er horfið, þökk sé NATO, en þó mest Bandaríkjunum. Endurskilgreina þarf því hinn stofnanalega tilgang NATO og tilvistargrundvöll þess ef það á að halda áfram. Það segi ég vegna þess að það hefur aldrei verið hægt og verður aldrei hægt að halda Rússlandi saman nema með harðri hendi, hvort sem okkur líkar það eða ekki. Landið er svo landfræðilega varnarlaust að annað mun aldrei ganga upp nema á miklum velsældartímum, sem sjaldgæfir eru vegna einmitt þessarar staðreyndar. Þess vegna þurfum við að hlúa að Rússlandi í stað þess að þjarma að því. Til eru leiðir til þess og þær heita sameiginlegir hagsmunir. Þjóðir hafa nefnilega hagsmuni en ekki vini

Sameinuðu þjóðirnar höfðu þó vit á -sennilega mest vegna þátttöku Bandaríkjanna í það skiptið- að setja inn í stofnsáttmála þeirra að sú stofnun snérist algerlega um samvinnu sjálfstæðra og fullvalda þjóða. En jafnvel alþjóðaista-elítur heimsins hafa náð að grafa undan þessu lögmæti Sþ að miklu leyti

Það hafa alltaf verið til þjóðir og það verða alltaf til þjóðir. Þeir sem neita þessu afneita hornsteinum mannlegrar tilveru. En "þjóðernishyggja" er hins vegar pólitískt heiti á nýrri hugmyndafræði í bókum. Því tilbúna hugtaki úr bókaskápum var svo klesst á þjóðina, til þess eins að ná fram ákveðnum og fyrirfram gefnum niðurstöðum, og í ákveðnum pólitískum tilgangi. Það heiti og hugtak er alveg nýtt í sögunni. Og einnig það nafn, var að miklu leyti búið til til þess að koma í veg fyrir eitthvað. Horft var í bakspegilinn þegar það var búið til

Það virðist vera svo, að einungis í Bandaríkjunum hafi menn -já við erum öll menn- haft vit á því að stofna pólitíska einungu í veraldarhafinu sem að mestu gengur alls ekki út á það að hindra eitthvað, heldur til að stuðla að einhverju. Eins og til dæmis frelsi manna og að skapa þeim jafna möguleika á að sækjast eftir hamingju. Fyrir fyrst og fremst sig sjálfa og sína, en ekki aðra

Allir vinna gegn öllum í Evrópu undir hatti útþvældrar lygi um "samvinnu". Evrópusambandið vinnur gegn NATO, því það vill draga þjóðar tennurnar úr ríkjum Austur-Evrópu, sem lífsnauðsynlega þurfa á þeim að halda í glímunni við Rússland. Þýskaland og Frakkland þola ekki sterka Austur-Evrópu, því það þýðir að þau tvö missa völd og vægi í Evrópusambandinu, sem þau þykjast eiga. Allar þær aðfarir ESB að Austur-Evrópu sem við sjáum í dag, eru vegna þess að Evrópusambandið þolir ekki að stjórnmálamenn þeirra landa séu fyrst og fremst ábyrgir gagnvart sínum kjósendum, en ekki öðrum. ESB þolir ekki að þær stjórnir séu ekki eins og Jóhönnu-stjórnin var, fyrst og fremst ábyrgar gagnvart Evrópusambandinu en ekki þjóðinni

Sameining Þýskalands þýddi endalok þeirra skilyrða sem Evrópusambandið gekk að, gagnvart kjósendum Frakklands á sínum tíma. Frakkland hefði ekki samþykkt ESB með sameinað Þýskaland innanborðs í dag. Þetta vita franskir kjósendur vel og þeir finna það ítarlega og ótvírætt á sinni eigin sál og líkama

En Vestur-Evrópa skiptir ekki lengur máli. Það er Austur-Evrópa sem skiptir öllu máli. Það er þar sem hlutirnir munu gerast í Evrópu í framtíðinni. En í heildina séð er tími Evrópu liðinn. Fimm hundruð ára áhrifavaldatímabili hennar í heiminum er lokið. Flest ef ekki allt mikilvægt í framtíðinni mun verða ákveðið í Washington. Og þannig mun allur heimurinn verða skrúfaður saman hin næstu mörg hundruð árin. Gamli heimurinn er búinn að vera

Evrópusambandið og alþjóðastofnanir geta ekki breytt heiminum. Þær eru heldur ekki sérlega gagnlegar, og sjá: kjarnorkuvopn hér - og kjarnorkuvopn þar. Það eina sem Þýskaland á eftir er að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Það er landinu óheimlit samkvæmt "alþjóðlegum" samningum. En allir vita hvernig farið hefur fyrir svoleiðis samningum þegar á reynir. Hvort að Þýskaland verði á undan Íran, Taívan, Suður-Kóreu og Japan eða öfugt, skiptir ekki máli, því Þýskaland er með borgaralega kjarnorku. Það tæki landið því ekki nema frá sex mánuðum til tveggja ára að gera sér öruggt, fullhert og skilvirkt vopn úr henni. Landið er það tæknilega burðugt. Enginn gæti komið í veg fyrir það. Þýskaland er miðflóttaaflið sem er að tæta Evrópu og það snýst ávallt um ótta, því það var stofnað af ótta - við samkeppni. Það er hræðslubandalag

Það sem skiptir máli í framtíðinni er þjóðin. Og það sem skiptir öllu máli fyrir þig er hvar þú ert fæddur sem maður. Og þannig á það að vera, því það býr til þau betri stjórnmál að stjórnmálamenn viti hvert hlutverk þeirra er. Annars geta þeir ekki stjórnað neinu, en þeim sjálfum mun hins vegar verða stjórnað af öðru; þ.e. engu. Eins og Evrópa er í dag

2008 breytti öllu. Ef við hefðum ekki haft fullveldið, þá værum við búin að vera í dag. Ríkin í ESB hafa ekki fullveldi og þau eru því í algerlega stórkostlegum vandræðum níu árum síðar. Fyrir þær þjóðir skipti 2008 öllu máli. En fyrir okkur og Bandaríkin var 2008 hins vegar ekki óyfirstíganlegt áfall. Við höfðum fullveldið og þjóðfrelsið og gátum því sparkað fulltrúum ófrelsisins út

Meira að segja utanríkisþjónusta Páfagarðs veit meira um utanríkisviðskipti Norður-Kóreu en ESB veit um sjálfa Evrópu. Heimsveldi Evrópusambandsins er þannig að það veit ekki neitt. Það er því að enda. Það fæddist á röngum forsendum og það er því ennþá fætt í gær

Franska byltignin hófst á því að skilgreina frönsku þjóðina. Skilgreina hverjir áttu að fá að vera í henni og hverjir ekki. Aðallinn átti ekki að vera með í henni, það var alveg klárt. Hann varð því ekki hluti af frönsku þjóðinni. En nú stendur nýr ESB-aðallinn hins vegar svo gott sem hæst við hún á fánastöng Élysée í dag. Frakkar vita vel að þannig getur Frakkland þeirra ekki gengið lengur. Komandi kosningar skipta þar engu um. Ekkert getur lengur stöðvað upplausn Evrópusambandsins

Við skulum halla okkur að ofureflinu. Og það er bara í Vestri. Það er það eina sem mun skipta öllu máli í framtíðinni. Ofureflinu á réttum stað. Á stað sem gengur út á að stuðla að frelsi manna

Washington 1. desember 1862
Abraham Lincoln um Bandaríki Norður-Ameríku

“the last best hope of earth”

- og þetta gildir enn

Fyrri færsla

Sigur: skilaboð til fimmflokksins: Ákvæðið um þjóðar­at­kvæði fallið úr gildi!


Bloggfærslur 2. maí 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband