Leita í fréttum mbl.is

Of ungir "þingmenn"?

Þetta er athyglisverð spurning hjá Styrmi Gunnarssyni. Hann spyr hvort að þingmenn (stjórnmálamenn) okkar séu of ungir

Hverju á maður að svara. Þetta er spurning sem á fyllilega rétt á sér, vegna þess að:

Frá því að Vesturlönd drógu þá ályktun af styrjöldinni sem hófst 1914 og lauk 1945, þar sem 100 milljón manns misstu lífið af pólitískum orsökum, þá varð það niðurstaða að eitthvað nýtt yrði að koma að stjórn Vesturlanda. Og að draga þyrfti nokkrar af beittustu tönnunum úr þjóðríkjunum, sem af sérfræðingum voru álitnar skemmdar. Fallist var á að sérfræðingar yrðu úrbætandi lausn og tanntökumenn. Gengist var í að stofna apparöt sem lytu ekki pólitískum lögmálum. Sérfræðingar áttu að stýra því apparati, því þeir áttu að vera ópólitísk lausn vandmála, vegna þess að enginn þyrfti að kjósa þá. Þar með yrði það eina sem þeir áttu að gera var að vera sérfræðingar: Þeir áttu að skila árangri, þeir áttu að virka, því þeir lutu ekki neinu nema lögmálum sérfræðinnar, sama hvað á dyndi í veröldinni og sama hver kysi hvern og hvenær

Dæmi um sérfræðinga: Múrari og bifvélavirki eru til dæmis sérfræðingar. Þeir skila árangri. Þeir byggja hús sem hrynja ekki og þeir gera við bilaða bíla. Læknar gera við fólk og forritarar búa til forrit. Bókhaldari færir bókhald. Við þurfum sérfræðinga

Sameinuðu þjóðirnar voru því stofnaðar. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og World Bank og NATO voru stofnuð. Nýtt fjármálakerfi með jafnvel ótal greiningardeildum og hin miklu fjármálaeftirlit voru stofnuð. Seðlabankar voru fylltir upp af sérfræðingum og stjórnmálamönnum sparkað út. Þetta eru allt stofnanir mannaðar sérfræðingum út í ystu æsar. Ofan í þetta hafa svo komið hundruð annarra alþjóðlegra stofnana og samtaka sem allar eru stútfullar af sérfræðingum, eða svo skyldi maður ætla. Og enn eitt nýja heimsveldi lausnaskapandi sérfræðinga í viðbót var stofnað, stútfullt af sérfræðingum: sjálft Evrópusambandið og myntbandalag þess

En hver er svo árangurinn af þessu öllu. Jú heimurinn hangir á ný á heljarþröm eftir að sérfræðingar þessara stofnana klessukeyrðu veröldinni og Íslandi 2008. Þessi heimur skilaði því miður ekki árangri. Sérfræðingaveldið brást. Þeir voru ekki sérfræðingar

Seðlabankar voru ekki sérfræðingar, þótt "sjálfstæðir" væru. Þeir sáu ekkert, nema Davíð af því að hann var ekki sérfræðingur. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var ekki sérfræðingar, hann kom ekki auga á neitt. Bankar voru ekki sérfræðingar, því þeir sprengdu allt í tætlur og sjálfa sig í loft upp. Greiningardeildir voru ekki sérfræðingar. Þær og deildir háskóla greindu ekki vandann sem þær sátu á og bjuggu jafnvel til með þurri þögn sinni. Bankaráðgjafar voru ekki sérfræðingar eins og gefið var í skyn. Þeir vissu lítið í sinn haus né annarra því þeir stóluðu á aðra sem áttu að vera sérfræðingar. Fjármálaeftirlit reyndust ekki vera sérfræðingar í neinu nema í að koma auga á ekki neitt. Verkalýðshreyfingin baðaði sig í sturtu sérfræðinnar og missti vitið og hefur ekki fundið það enn. Sameinuðu þjóðirnar hafa lítið leyst af hendi, nema helst losað þá sem borga við foss peninga. Og Evrópusambandið og stofnanir þess hafa sprengt Evrópu í loft upp. Hin sprenghlægilega framkvæmdastjórn þess er ekki sprenghlægileg útaf engu. Hún sprengir, jafnvel í tætlur

Allir sem hafa sveinsbréf í einhverju hefðu þarna misst réttindin sín. Allir læknar sem skilað hefðu þessum árangri væru fyrir löngu orðnir réttindalausir og flugvirkjar sætu í fangelsi

Þannig að mjög hægt og rólega er hægt að segja að sú ályktun sem eftir 1945 kom af stað sérfræðingaveldi Vesturlanda, var að mestu leyti röng. Því þetta veldi virkaði ekki. Það skilaði ekki árangri. Þeir reyndust ekki vera sérfræðingar sérfræðingarnir

Vopnuð átök og stríð eru hafin á ný. Barist er á víðstöðvum í Evrópu og nágrenni hennar. Tannlausar þjóðir ESB-Evrópu eru vel flestar sigldar sérfræði-sligaðar í kaf og klofning og ónýt ríki eru í smíðum í rústum sérfræðinganna í ESB-Evrópu. Þeir voru nefnilega engir sérfræðingar. Þeir höfðu ekki það sem til þurfti samanber Icesave já-já-amen hópunum af glötuðum sérfræðingum sem þekktu hvorki fólkið á jörðu niðri né heldur þekktu þeir þjóðina. Þeir voru sannarlega grasasnar flestir og er það skjalfest meitlað í vitund þjóðarinnar. Hún treystir þessu fólki ekki lengur. Og sem betur fer var Lýðveldið Ísland ekki orðið tannlaus ESB-gómur samkvæmt ráðgjöf sérfræðinga, en allt var reynt og mest með svikráðum studdum sérfræðiáliti til að koma svo illu yfir okkur. En tennur lýðveldisins virkuðu, því þær höfðu ekki verið dregnar úr, og þær bitu fast frá sér. Það skipti öllu máli fyrir okkur að hafa þær, flugbeittar

En hafa stjórnmálamenn/þingmenn það sem til þarf núna? Það hafa þeir ekki ef þeir halda að þeir geti orðið "þingmenn" með aðstoð sérfræðinga og unnið pólitískt starf með aðstoð sérfræðinga sem eru ekki sérfræðingar. Stjórnmálamenn okkar verða að geta virkað og gengið einir og óstuddir og þeir verða að hafa vísdóm. Það er ekki nóg að hafa bara kunnáttu, heldur verða þeir einnig að hafa vísdóm. Og það er ekki hægt að búa yfir vísdómi ef maður er of ungur. Það er einfaldlega ekki hægt. Og svo þarf maður að þekkja þjóðina, sjálft fólkið. Þekkja hana út og inn. Það tekur tíma

Það sem við höfum í dag er sennilega sú versta staða sem heimurinn hefur séð síðan 1945. Við höfum nefnilega of marga of unga sem stjórnmálamenn í höndum sérfræðinga. Þetta er sennilega það versta sem gerst hefur síðan elítur og aðall skutu 1914 í gang, og sem endaði með 100 milljón drepnum

Það er orðin mín persónulega og því sem næst óhagganlega skoðun, að innan 10-20 ára muni Evrópa, Rússland, stór hluti Asíu, öll Mið-Austurlönd og Norður-Afríka loga svo glatt, að því ástandi muni jafnvel verða gefið nafnið þriðja heimstyrjöldin. Að mínu mati er þetta orðin þróun sem ekki er lengur hægt að stöðva. Árið 1914 voru það aðall og elítur sem réðu för. Í dag eru það sérfræðingar að allt of miklu leyti

Svo svar mitt við spurningu Styrmis er þetta. Já stjórnmálamenn okkar eru of ungir. Þeir eru reyndar varla stjórnmálamenn lengur. Við þurfum á vísdómi að halda og við þurfum á öldungaráði að halda. En munum við fá það? Nei svo sannarlega ekki, vegna þess að stjórnmálamenn okkar eru of ungir til að hafa vísdóm og þeir eru því flestir einungis talsmenn sérfræðinga, því þeir geta ekki verið neitt annað. Og það sem verra er, þeir geta ekki vitað hve vísdómur þeirra er lítill. Sérfræðingarnir vilja hafa þetta svona. Þar við mun sitja, og heimurinn fara þessa ferð hér að ofan, einu sinni enn. Þetta ríki í ríkinu þarf að rífa í tætlur

Gott að hann Trump rak lögreglustjórann. Hann gerði það af því að sá var ekki sá sérfræðingur sem hann átti að vera. Hann gerði það af því að hann hefur vísdóm til að gera það. Hann er nógu gamall til þess. Það þarf að reka fullt af fólki í heiminum. Fullt af fólki, heilan sand af fólki. Og svo mætti forsætisráðherrann okkar hætta að reyna að virka og gera sig út sem sérfræðingur. Annars verður hann rekinn, því hann má ekki vera sérfræðingur

Fyrri færsla

Pasta í súrkáli grillað í hollenska þinginu


Bloggfærslur 13. maí 2017

Höfundur

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson

Búseta: Ísland.
Reynsla: 25 ára búseta í ESB og fyrirtækja-rekstur í DK/ESB frá 1985 til 2010. Samband:
tilveraniesb hjá mac.com

Ég er hvorki skráður á Facebook, Twitter, Linkedin né á neinum öðrum "félags-vefjum". Aðsetur skrifa minna er einungis að finna hér á þessari síðu og á tilveraniesb.net og í blöðum og tímaritum

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband